Útgjaldarammar
Markmið rammafjárlagagerðar er að efla stefnumótandi hlutverk stjórnvalda og að
tryggja betur að mörkuð stefna nái fram að ganga. Gerist það með þeim hætti að
allir aðilar sem koma að undirbúningi og framkvæmd fjárlaga — ríkisstjórn,
ráðuneyti, stofnanir og Alþingi — þurfa að taka mið af þeim takmörkuðu
fjármunum sem eru til ráðstöfunar hverju sinni og axla þá ábyrgð að velja á
milli verkefna og forgangsraða þeim. Í megindráttum byggir tilhögun
fjárlagagerðarinnar á því að ríkisstjórnin ákveður heildarútgjöld
ríkissjóðs og útgjaldaramma fyrir hvert ráðuneyti — hámarksútgjöld þeirra
á fjárlagaárinu — áður en fjárveitingum er úthlutað til einstakra stofnana og
verkefna. Rammarnir eru síðan lagðir til grundvallar við fjárlagagerðina á öllum
stigum stjórnsýslunnar. Einstakir ráðherrar og ráðuneyti bera þannig fjárhagslega
ábyrgð á forgangsröðun og skiptingu útgjalda milli stofnana og verkefna í
fjárlagafrumvarpi innan þeirra marka sem rammarnir setja. Við afgreiðslu fjárlaga
tekur Alþingi afstöðu til þeirrar skiptingar. Þegar kemur að framkvæmd fjárlaganna
er ráðuneytum og forstöðumönnum stofnana síðan ætlað að sjá til þess að
útgjöld haldist innan settra fjárheimilda. Þessi stýring á ríkisfjármálunum með
tilstyrk útgjaldaramma miðar að því að skipa stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í
fyrirrúm.
Langtímaáætlun
Rammafjárlagagerð byggir á því að stjórnvöld leitast við að ákvarða framvindu
ríkisfjármálanna fyrirfram. Til þess þarf að horfa lengra fram á veginn en til
næsta fjárlagaárs. Er því lögð vaxandi áhersla á að greina útgjaldahorfur og
að móta ríkisfjármálastefnu til nokkurra ára miðað við þau markmið sem sett eru
um heildarafkomu ríkissjóðs og útgjaldaáherslur í einstökum málaflokkum. Í nýjum
lögum um fjárreiður ríkisins er kveðið á um að sérstök langtímaáætlun um
ríkisfjármál skuli jafnan lögð fram með fjárlagafrumvarpi, þar sem fram komi
horfur um þróun tekna, gjalda og skuldsetningar ríkissjóðs. Áætlunin myndar
umgjörð um flesta aðra þætti fjárlagaferlisins. Við setningu ramma fyrir
ráðuneytin er litið til þess hvort ríkisfjármálin þokast nær eða fjær settum
markmiðum samkvæmt langtímaáætlun.
Setning ramma og
breytingar
Útgjaldarammar ráðuneyta birtast í framlögum gildandi fjárlaga hverju sinni.
Breytingar á römmunum eru ekki gerðar nema með ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í
upphafi fjárlagagerðar fyrir komandi fjárlagaár leggja ráðuneytin fyrir
fjármálaráðuneyti tillögur þar sem kynnt eru tilefni til breytinga á römmum
miðað við horfur og fyrri skuldbindingar fremur en að þær feli í sér endurmat á
öllum römmum frá grunni. Þar getur verið um að ræða framlög sem eru bundin vegna
laga, samninga eða fyrri ákvarðana ríkisstjórnar, ný framlög vegna aukinnar
starfsemi eða nýrra verkefna, niðurfellingar tímabundinna framlaga, flutninga á
framlögum í kjölfar breyttrar forgangsröðunar og lækkun framlaga vegna
sparnaðaráforma. Við umfjöllun ríkisstjórnar um útgjaldatilefnin er afráðið
hvernig brugðist verður við þeim og hvaða áhrif þau hafa á ramma ráðuneyta.
Lögð er áhersla á að
í hverjum áfanga fjárlagaferlisins liggi fyrir með óyggjandi hætti hvaða rammi
gildir fyrir hvert ráðuneyti, hvaða forsendur og útgjaldatilefni voru lögð til
grundvallar ákvörðunar hans í ríkisstjórn, hver hafa orðið afdrif fyrri
ákvarðana, t.d. varðandi sparnaðaráform, og hvernig brugðist verður við frávikum
frá römmum. Fjármálaráðuneytið heldur yfirlit fyrir ríkisstjórnina um stöðu
útgjaldaramma á hverjum tíma.
Verkaskipting
fjármálaráðuneytis og fagráðuneyta
Með rammafjárlögum er fagráðuneytum falin aukin ábyrgð á því að móta stefnu
ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og tryggja framgang hennar. Hvert ráðuneyti
ber ábyrgð á því að bæði undirbúningur og framkvæmd fjárlaganna samrýmist
samþykktum útgjaldaramma. Forgangsröðun fjárveitinga til stofnana og verkefna innan
settra ramma er jafnframt á hendi fagráðuneyta. Í samræmi við þetta fyrirkomulag
skila stofnanir nú fjárlagatillögum eingöngu til fagráðuneyta en ekki einnig til
fjármálaráðuneytis eins og áður tíðkaðist.
Hlutverk
fjármálaráðuneytis snýr á hinn bóginn að því að leiða vinnuna við
fjárlagagerðina með því að samræma vinnubrögð og upplýsingaskil. Þá fjallar
fjármálaráðuneytið um heildarstærðir ríkisfjármálanna, undirbýr ákvarðanir um
útgjaldaramma og veitir ríkisstjórninni ráðgjöf við stefnumótun.
Ófyrirséð
útgjöld
Við setningu fjárlaga eru gerðar ráðstafanir til þess að mæta ýmsum
óreglubundnum og ófyrirséðum útgjöldum. Fyrst má nefna að veitt er fjárheimild á
sérstökum lið í umsjón fjármálaráðuneytis til þess að bæta stofnunum aukin
útgjöld vegna kjarasamninga eða verðlagsbreytinga umfram það sem gert hefur verið
ráð fyrir í fjárveitingum til þeirra í fjárlögum. Í öðru lagi er hverjum
ráðherra veitt tiltekið ráðstöfunarfé sem ætlað er til þess að leysa úr
fjárþörf vegna rekstrarerfiðleika stofnana og vegna ýmissa verkefna sem fram koma
innan fjárlagaársins. Ríkisstjórnin í heild hefur til ráðstöfunar sambærilegan
lið vegna mála sem eðlilegt þykir að hún afgreiði fremur en einstök ráðuneyti.
Í þriðja lagi eru mörgum málaflokkum ráðuneyta ætlaðir sérstakir óskiptir
fjárheimildaliðir, sem eru nýttir til þess að mæta minni háttar rekstrarvanda,
afleysingum, fæðingarorlofi o.þ.h., einkum hjá minni stofnunum sem ekki hafa mikið
svigrúm til að greiða slík óreglubundin útgjöld. Þessar ráðstafanir eiga í
flestum tilvikum að duga til þess að rammar geti haldist óbreyttir þrátt fyrir ýmis
frávik sem kunna að koma fram á forsendum áætlana fyrir einstakar stofnanir eða
verkefni við framkvæmd fjárlaga.
Fjáraukalög
Í þeim tilvikum þegar framangreindar ráðstafanir nægja ekki til að mæta breytingum
á efnahagsforsendum eða ytri skilyrðum ríkisstarfseminnar þarf að afla aukinna
fjárheimilda á Alþingi með fjáraukalögum. Til þess að skjóta traustari stoðum
undir útgjaldaramma ráðuneyta hefur hlutverk fjáraukalaganna hins vegar verið þrengt
frá því sem áður var. Ráðuneytum og stofnunun er almennt ætlað að leysa úr
vandamálum með öðrum hætti en að leita eftir viðbótarframlögum eftir samþykkt
fjárlaga. Ákvörðunum um ný og aukin verkefni og ýmis konar minni rekstrarvandamál
sem geta beðið úrlausnar er því vanalega frestað til næstu fjárlaga. Önnur
útgjaldatilefni ráðuneyta eru lögð fyrir ríkisstjórnina til afgreiðslu með
svipuðum hætti og við undirbúning fjárlaga.
Útgjaldatilefnum vegna
fjáraukalaga er ætlað að takmarkast við eftirfarandi þætti:
 |
Kjarasamninga og verðlagsbreytingar umfram
forsendur fjárlaga.
|
 |
Lög- og samningsbundin útgjöld, að því marki
sem ríkisstjórnin samþykkir að þeim skuli ekki mætt með samsvarandi sparnaði
|
 |
Mál sem eru gagngert hluti af
efnahagsráðstöfunum.
|
 |
Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um ný verkefni.
|
Ráðstöfun á
stöðu fjárheimilda í árslok
Til þess að rammafjárlög skili tilætluðum árangri þurfa ráðuneyti og stofnanir
að búa þannig um hnútana í fjármálastjórn sinni að starfsemi og verkefni á
þeirra verksviði rúmist innan markaðra fjárveitinga ársins. Gangi það ekki eftir
eru umframgjöldin almennt "yfirfærð" milli ára. Er það gert með þeim
hætti að fjárveitingar í fjárlögum næsta árs eru lækkaðar með fjáraukalögum
sem nemur umframgjöldunum. Á sama hátt eru fjárveitingar í fjárlögum almennt
hækkaðar með fjáraukalögum sem nemur afgangsheimildum undangengins árs til þess að
stofnanir haldi eftir ávinningi af sparnaði og aðhaldi í starfsemi sinni. Hefur þetta
fyrirkomulag, líkt og í mörgum öðrum löndum, aukið ráðdeild í ríkisrekstrinum
og stuðlað að agaðri fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana.
Ráðstafanir vegna
stöðu fjárheimilda í árslok byggja á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið
til þess hvort útgjöldin eru bundin, t.d. af lagaákvæðum, eða eru fremur á
ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila. Meginreglan er að umframgjöldum og ónotuðum
fjárveitingum í rekstri stofnana er ráðstafað til næsta árs. Sama gildir um
afgangsheimildir til fjárfestingar þegar framkvæmdum er ólokið. Staða fjárheimilda
á liðum fyrir tilfærsluframlög, t.d. til almannatrygginga, fellur hins vegar almennt
niður, enda eru þær greiðslur í flestum tilvikum lög- eða samningsbundnar.
Áætlanagerð og
upplýsingamiðlun stjórnsýsluaðila
Rammafjárlagagerð miðast við að ríkisstjórn og Alþingi taki ákvarðanir um
ríkisfjármálastefnu og útgjaldaramma en að áætlanir og ákvarðanir um einstök
atriði í fjárreiðum verkefna fari að mestu fram hjá viðkomandi ráðuneytum og
stofnunum. Árlegar rekstraráætlanir eru nú gerðar víðast hvar hjá ríkisstofnunum.
Rekstraráætlanirnar þjóna forstöðumönnum og deildarstjórum stofnana til þess að
vega og meta hvar og hvernig takmarkaðir fjármunir koma að bestum notum í rekstrinum
í samræmi við þau starfsmarkmið sem að er stefnt. Þá eru þær mikilvægt tæki
við sundurgreiningu og mat á hagkvæmustu samsetningu aðfanga og stuðla þannig að
því að stofnanir nái sem bestri nýtingu út úr fjárveitingum sínum.
Á síðustu árum hefur
einnig verið lögð aukin áhersla á upplýsingamiðlun frá stofnunum um verkefni sín
og árangur, eða svonefnda verkefnavísa. Sú þróun er til marks um að með
rammafjárlögum verður minni þörf fyrir að stýra því nákvæmlega hvernig opinberu
fé er varið til að greiða laun, leigja bifreiðar eða kaupa rekstrarvörur. Fremur er
litið til þess hvað þessi aðföng stofnana skila miklum eða góðum árangri í
starfseminni, t.d. með fjölda afgreiddra þinglýsinga, útskrifaðra nemenda eða
yfirfarinna skattframtala. Með verkefnavísum stofnana fá stjórnvöld í hendur
sérsniðnar upplýsingar sem eru vel til þess fallnar að gefa vísbendingar um
framvindu mála þegar lagt er mat á afurðir og árangur og teknar ákvarðanir um
forgangsröð verkefna. |